Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. SRN17100038

Ár 2018, þann 28. mars, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17100038

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 12. október 2017 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi), kt. 0000, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 3. október 2017 um að synja umsókn hans um forskráningu bifreiðar af gerðinni Mazda 3 Speed.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Málavextir eru þeir að kærandi hafði upphaflega samband við SGS í apríl 2017 vegna innflutnings á bifreið af gerðinni Mazda 3 Speed frá Bandaríkjunum (USA) til Íslands. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og SGS þar sem kærandi freistaði þess að fá bifreiðina skráða hér á landi. Það er loks þann 2. október 2017 sem kærandi sendir inn umsókn þess efnis að bifreiðin verði forskráð. Með ákvörðun SGS þann 3. október 2017 var umsókn kæranda synjað að svo stöddu þar sem fyrirliggjandi gögn bæru ekki með sér að skilyrðum forskráningar væri fullnægt þar sem ökutækið fullnægði ekki mengunarkröfum sem gerðar eru til ökutækja sem flutt eru inn frá USA.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kæranda mótteknu 12. október 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 19. október 2017 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 14. nóvember 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. nóvember 2017 var kæranda kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með tölvubréfi kæranda mótteknu 27. desember 2017.

Með tölvubréfi dags. 2. febrúar 2017 tilkynnti ráðuneytið kæranda að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi telji að SGS hafi brugðist upplýsingaskyldu stofnunarinnar. Þær verklagsreglur sem SGS vísi til hafi hvorki verið auglýstar í Lögbirtingablaði né birtar annars staðar en á heimasíðu SGS. Sé það ósanngjörn krafa að einstaklingur sem flytur búferlum til Íslands þurfi að kanna sérstaklega reglugerð nr. 822/2004 og verklagsreglur um ökutæki sem ekki uppfylla kröfur um tækniupplýsingar. Þá telur kærandi SGS beita verklagsreglum sem mismuni þegnum þegar ökutæki eru forskráð. Bifhjól, fornbílar og notaðir bílar sem skráðir eru innan Evrópu þurfi ekki tæknivottorð frá viðurkenndri skoðunarstöð. Þessi ökutæki falli undir verklagsreglur SGS og fáist því forskráð þó svo þau standist ekki tilskipun 2007/46/EB er varðar umhverfisvernd og umferðaröryggi. Eins séu dæmi um að húsbílar hafi verið forskráðir með tilvitnun í undanþáguákvæði verklagsreglna. Þá telur kærandi það ákvæði verklagsreglunnar að sú krafa sé gerð að ökutækin uppfylli núgildandi Euro-mengunarstaðla eða sambærilegar kröfur sé grófleg mismunun og óraunhæf um notaðar bifreiðar. Hafi ákvæðið eingöngu verið sett inn til að torvelda innflutning notaðra bifreiða frá USA. Þá bendir kærandi á að bifreiðin sem um ræðir sé framleidd árið 2010 og keypt áður en reglugerð nr. 236/2014 um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 hafi tekið gildi. Bifreiðin hafi verið keypt árið 2012 og þá hafi notaðar bifreiðar verið flokkaðar eftir vélarstærð eða þyngd, en í dag séu bifreiðar flokkaðar eftir CO2 losun. Krafa um tæknivottorð og Euro-mengunarstaðla sé eðlileg ef um nýja og ónotaða bifreið er að ræða. Bendir kærandi á að tugþúsundir bíla standist ekki Euro 5 staðal sem SGS setji sem skilyrði forskráningar notaðra bifreiða frá USA. Þá kvartar kærandi yfir því að ákvæði 03.05(4) b reglugerðar nr. 822/2004 skuli gilda fyrir notuð ökutæki. Í sama ákvæði sé krafist frumrits frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu. Mjög ólíklegt sé að eigandi bíls frá 2010 eigi frumrit tæknilýsinga sem límt er í glugga nýrra bíla. Þá hafi kærandi sent til TUV nord og Frumherja tækniupplýsingar um bifreiðina sem eru á netinu. Í USA séu tækniupplýsingar um bifreiðar undir virtum vefsvæðum. Samkvæmt þeim upplýsingum sé CO2 losun bifreiðarinnar 224 g sem sé eðlileg losun fyrir bíl sem er framleiddur árið 2010. Það sé því ekki skortur á upplýsingum sem stöðvi forskráningu bifreiðarinnar.

Í andmælum sínum vísar kærandi til þess að allar upplýsingar séu til um bifreiðina. Þá telur kærandi að svör SGS þegar þess var freistað að flytja inn bifreiðina hafi verið villandi. Hafi SGS hafnað tækniskoðun Frumherja og skráningu bifreiðarinnar á þeirri forsendu að CO2 losun vélar liggi ekki fyrir og vitni til þess að bifreiðin sé ekki „California Standard“. Þá sé sérkennilegt að notaðar bifreiðar frá USA þurfi að uppfylla núgildandi mengunarkröfur í Evrópu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum standist bifreiðin alla staðla um mengun og sé langt undir hæsta CO2 flokki samkvæmt tollalögum. Þá telur kærandi að ósanngjarnt og óraunhæft sé að gera þá kröfu að bifreið sem er framleidd 2010 sé „California Standard“. Sá staðall sé margfalt strangari en nokkur Euro-staðall. „California Standard“ taki á mörgum atriðum og sé CO2 einn þeirra. Það sem geri „California Standard“ strangari en t.d. Euro 6 kröfur sé krafa um fjölda öryggispúða og afl vélar pr kg af eigin þyngd ökutækis. Í dag séu allar nýjar bifreiðar sem seldar eru í USA annað hvort „All Fifty State“ eða „California Standard“. Ef umrædd bifreið væri keypt ný í dag væri hún annað hvort. Þá vísar kærandi til þess að málsmeðferð SGS hafi verið verulega ábótavant. Telur kærandi að krafa um tæknivottorð frá Evrópu og reglur um innflutning notaðra bifreiða frá ríkjum utan ESB séu of strangar og íþyngjandi. Einnig telur kærandi það einkennilega kröfu að sömu reglur gildi um innflutning á nýjum og notuðum bílum. Einnig kveðst kærandi hafa leitað til Mazda í Evrópu og Brimborgar, umboðsaðila Mazda á Íslandi sem og til Headquarters Mazda í Orlando. Þessir aðilar hafi bent kæranda á og útvegað tæknilýsingu þar sem CO2 emission komi fram, en SGS og TUV neiti að taka gilt þar sem gögnin séu ekki frumrit með verksmiðjunúmeri bílsins. Slíkt frumrit sé ógjörningur að finna og krafan því mjög ósanngjörn. Þá liggi fyrir að til að hægt sé að tollafgreiða bifreið þurfi hún að vera forskráð og komin með fastanúmer. Í lögum um vörugjald af ökutækjum séu gjaldflokkar tilgreindir. Lítur kærandi svo á að löggjafinn hafi verið að ákveða gjaldflokka miðað við CO2 losun og geti kærandi því ekki séð á hvaða lögum reglugerð nr. 822/2004 byggist.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram sú niðurstaða stofnunarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á að ökutækið uppfyllti mengunarkröfur sem gerðar eru til ökutækja sem flutt eru inn frá USA miðað við þær upplýsingar sem gefnar voru af kæranda. Hafi honum verið bent á að leggja fram viðeigandi gögn.

Í inngangi að reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 komi fram að markmiðið með reglugerðinni sé að tryggja umferðaröryggis- og umhverfissjónarmið. Kveði reglugerðin m.a. á um tæknilegar kröfur þegar ökutæki er skráð á Íslandi, ásamt kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætluð eru í ökutæki. Reglugerðin setji samræmd viðmið til þess að auðvelda skráningu, sölu og notkun ökutækja á evrópska efnahagssvæðinu ásamt því að kveða á um kröfur um tæknilegt ástand ökutækja í notkun. Samkvæmt ákvæði 03.05(4) b í reglugerð nr. 822/2004 skuli upplýsingar, m.a. um útblástursmengun (mengunarstaðall), staðfestar með vottorði frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu í frumriti, þar sem fram kemur verksmiðjunúmer viðkomandi ökutækis. Samkvæmt  ákvæði 03.05(5) sé hins vegar heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 03.05(4) b á grundvelli þess að ekki sé unnt að fá útgefið vottorð sem þar er áskilið. Þegar undanþága er veitt skuli SGS meta hvort ökutæki fullnægi kröfum til skráningarviðurkenningar. Skuli matið fara fram í samræmi við verklagsreglur sem SGS setur um undanþágu samkvæmt ákvæðinu. Í verklagsreglum SGS vegna skráninga á ökutækjum sem ekki uppfylla kröfur um tækniupplýsingar frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu komi fram að við mat á því hvort umsókn um forskráningu sé samþykkt á grundvelli undanþáguheimildarinnar, skuli leggja til grundvallar þau sjónarmið sem fram koma í tilskipun 2007/46/EB er varða umhverfisvernd og umferðaröryggi. Gerð sé sú krafa um mengun að ökutækin uppfylli núgildandi Euro-mengunarstaðla eða sambærilegar kröfur, s.s. „California Standard“ eða „All Fifty States.“ Hafi þessi möguleiki verið kannaður en engin merking hafi verið í ökutækinu um slíkan mengunarstaðal. Skilyrði fyrir beitingu undanþágunnar séu því að mati SGS ekki fyrir hendi. Þá hafi gögnum sem sýni fram á fullnægjandi mengunarstaðla ekki verið komið á framfæri við SGS.

SGS vísar til þess að í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda hafi SGS gert kæranda viðvart um hverju væri ábótavant og bent á mögulegar leiðir fyrir kæranda til að bera sig eftir þeim gögnum sem á skortir. Hafi þessi samskipti átt sér stað bæði munnlega og með tölvubréfum. Fyrir liggi að ekki hafi tekist að útvega tilskilin gögn og því sé ekki heimilt að samþykkja umsókn um forskráningu bifreiðarinnar. Reglugerðin sé afdráttarlaus að þessu leyti þegar tilvitnað undanþáguákvæði á ekki við. Þá hafi öðrum aðilum einnig verið bent á og gert að hlíta þeim skilyrðum reglugerðarinnar sem um ræðir þannig að jafnræðissjónarmiða hafi verið gætt. Séu framangreindar kröfur í samræmi við það sem tíðkast í öðrum ríkjum Evrópu. Verði því að teljast sanngjarnt að gera þá kröfu að sá sem ætlar að flytja inn ökutæki kanni fyrst hvaða reglur gildi um skráningu þeirra og hvort ökutækið geti uppfyllt þær áður en til eiginlegs flutnings ökutækisins til landsins kemur. Hafi kæranda verið bent á það að geti hann aflað viðeigandi gagna frá viðurkenndri tækniþjónustu eða framleiðanda muni SGS taka þau gögn til skoðunar og meta hæfi til forskráningar. Komi þessi höfnun þannig ekki í veg fyrir forskráningu ökutækisins síðar ef fullnægjandi gögnum verði framvísað.

Í umsögn SGS ítrekar stofnunin þær reglur sem gilda um forskráningu notaðra bifreiða frá ríkjum utan EES, sbr. það sem rakið var í hinni kærðu ákvörðun. Tekur SGS fram að kröfur um tæknivottorð séu í samræmi við það sem tíðkast í öðrum ríkjum Evrópu. Sé algengara að þar fari ökutæki í tækniskoðun þar sem m.a. sé athugað hvort ökutækið uppfylli Euro mengunarstaðla. Engar slíkar tækniþjónustur sé að finna á Íslandi. Tekur SGS fram að í Evrópu séu ekki sameiginlegar reglur varðandi innflutning ökutækja frá ríkjum utan EES. Mengunarkröfur ökutækja innan EES séu settar á grundvelli Euro staðla samkvæmt tilskipun 2007/46/EB og í sérstakri löggjöf sem ákvarðar losunarmörk, þ.e. reglugerð 715/2007/EB (Euro 5 og 6) varðandi útblástur frá léttum farþega- og atvinnuökutækjum. Strangari kröfur hafi verið settar frá því fyrsti staðallinn (Euro 1) var settur árið 1992. Í dag gildi Euro 6 fyrir létt ökutæki en hann hafi verið í gildi síðan 2014. Í USA séu vegna mengunar bæði alríkisstaðlar (federal standards) sem og „California standards“ sem séu strangari kröfur en alríkisstaðlarnir. Öðrum ríkjum sé heimilt að innleiða þessar strangari kröfur í stað alríkisstaðlanna og hafi mörg ríki tekið það skref. Ökutæki sem ekki uppfylla California staðalinn fái þá ekki skráningu innan ríkis þar sem sá staðall gildir. California standard mengunarstaðallinn sé talinn sambærilegur eða jafnvel strangari en Euro staðlarnir í Evrópu og því séu ökutæki sem uppfylla hann eða aðra staðla sem innihalda California staðalinn, sbr. t.d. „All Fifty States“, talin hæf til skráningar.

SGS tekur fram að ferli forskráninga sé að finna í skráningarreglum SGS 1.2.1 sem byggi á reglugerð nr. 751/2003. Þar komi fram að umsókn um forskráningu sé skilað inn til SGS ásamt viðeigandi fylgigögnum. Miklu skipti að öll tilskilin gögn fylgi umsókn og að um rétt umsóknareyðublað sé að ræða. Þann 5. júlí 2017 hafi kærandi sent til Frumherja beiðni um skráningarskoðun þar sem ekki væri hægt að afla tæknivottorðs, sbr. verklagsreglur varðandi bifreiðar sem ekki uppfylla kröfur um tæknivottorð. Þann 7. júlí 2017 hafi Frumherji sent tölvubréf til SGS með gögnum og myndum af bifreiðinni og hafi erindinu verið svarað samdægurs. Frumherji hafi svarað kæranda með tölvubréfi þann 25. júlí 2017 með þeim skilaboðum að ekki hafi tekist að finna gögn sem sýni fram á að bifreiðin uppfylli California mengunarstaðalinn og að ekki fáist samþykki SGS. Telur SGS að á þessum tímapunkti hafi gætt misskilnings þar sem kærandi nefni að þann 15. ágúst 2017 hafi ekki borist formleg synjun á forskráningu bifreiðarinnar og því ekki unnt að kæra til ráðuneytisins. Hins vegar hafi hvorki umsókn um forskráningu né beiðni þar um fylgt til Frumherja enda sé hefðbundið verklag það að innflytjendur (umsækjendur) sæki sjálfir um forskráningu til SGS eftir skoðun líkt og fram komi í verklagsreglum. Frumherji taki hvorki á móti umsóknum um forskráningu ökutækja fyrir hönd SGS né taki þeir slíkt umsóknarferli að sér fyrir viðskiptavini. Virðist sem kærandi hafi á þessum tíma talið að formleg umsókn um forskráningu hafi verið send SGS en svo hafi ekki verið. Þá hafi Frumherja og SGS ekki verið kunnugt um þær væntingar kæranda. Þá telur SGS að sú einhliða staðhæfing kæranda að í minnisblaði frá fundi 26. júlí 2017 komi skýrt fram að SGS ætli að hafna forskráningu til að hægt sé að kæra eigi ekki við rök að styðjast, enda þurfi umsókn um forskráningu að berast  til að hægt sé að hafna henni. Megi gera ráð fyrir að misskilningur um hvort umsókn hafi borist leiði af þeim misskilningi sem lýst hefur verið. Þá tekur SGS fram að ef einhver fylgigögn vantar sé umsókn um forskráningu hafnað á þeim forsendum að gögn vanti og umsóknin endursend ásamt gögnum til umsækjanda. Komi fram í stöðluðu höfnunarbréfi þegar gögn vantar að umsóknin verði tekin til endurskoðunar verði tilskildum gögnum skilað til SGS.

Varðandi leiðbeiningarskyldu stjórnvalda bendir SGS á að í henni felist að leiðbeina beri aðila máls um þær réttarreglur sem gildi í viðkomandi stjórnsýslumáli og um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að fá tiltekin leyfi útgefin af viðkomandi stjórnvaldi, t.d. hvað varðar skil á gögnum, hvar eyðublöð sé að finna o.s.frv. Hægt sé að veita upplýsingar bæði skriflega og munnlega. SGS leiðbeini um reglur og málsmeðferð sem gildi í þeim málum sem stofnunin fari með. Jafnframt fari SGS yfir innsend gögn og samþykki eða hafni umsóknum sem henni berast. Sé það mat SGS að leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum hafi verið fullnægt. Þegar kærandi hafði fyrst samband við SGS þann 11. apríl 2017 megi ráða af orðalagi fyrirspurnar og einnig samkvæmt gögnum sem fylgdu kærunni að þegar í mars 2017 hafi verið tekin ákvörðun um að flytja bifreiðina til Íslands og hún send af stað með flutningabifreið til skipafélags. Af tölvubréfum sem sem gengu milli kæranda og SGS megi sjá að samskiptin hafi verið í formi fyrirspurna varðandi þær kröfur sem gerðar eru til innflutnings bifreiða frá USA og möguleikum á undanþágu, þar sem allt hafi bent til þess að bifreiðin uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar eru. Starfsmenn SGS hafi svarað kæranda og gert honum ljóst að skilyrði fyrir beitingu undanþágu væru ekki fyrir hendi. SGS hafi upplýst úr hverju þyrfti að bæta til að forskráning fengist og bent á mögulegar leiðir fyrir kæranda til að bera sig eftir þeim gögnum sem á skorti. Formlegt umsóknarferli hafi aldrei komið til tals enda nokkuð ljóst af fyrirspurnum og svörum að dæma að ökutækið uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar eru til bifreiða sem fluttar eru inn frá USA. Tekur SGS fram að stofnuninni berist fjölmargar fyrirspurnir um hin ýmsu mál og geri sitt besta til að leiðbeina viðskiptavinum og finna með þeim lausnir. Fyrirspurnum sé því svarað en það sé ekki svo að hverri fyrirspurn sé tekið sem formlegri umsókn. Þó sé leiðbeint um það þegar við á. Þá gerist það stöku sinnum, líkt og í þessu tilviki, að ökutæki séu flutt til landsins án þess að kannað sé fyrst hvaða reglur gildi um ökutækið. SGS hafi ekki heimildir til að veita frekari undanþágur en lög og reglur kveði á um. Öðrum aðilum hafi verið gert að hlíta þeim skilyrðum reglugerðarinnar sem um ræðir þannig að jafnræðissjónarmið við afgreiðslu sambærilegra mála leiði jafnframt til sömu niðurstöðu.

Þá telur SGS rétt að koma að nokkrum athugasemdum vegna staðhæfinga sem fram koma í kæru. Er á það bent að SGS sé stjórnsýslustofnun og veiti upplýsingar og leiðbeiningar þegar eftir því er leitað en það sé í höndum flutningsaðila og annarra sem að málum koma að kynna sér þær reglur sem gilda um þeirra starfsemi eða athafnir. Geti SGS ekki borið ábyrgð á þekkingu aðila á réttarreglum og því geti það vart talist ósanngjörn krafa að aðilar kynni sér sjálfir gildandi reglur og eigi það við um mál sem heyra undir SGS sem og aðrar stofnanir. Verklagsreglur SGS séu birtar á heimasíðu stofnunarinnar og séu þar aðgengilegar öllum. Þær byggist á ákvæðum laga og reglugerða. SGS bendir á að notuð ökutæki sem flutt eru til landsins frá Evrópu hafi áður verið skráð í ríki innan EES og þá sýnt fram á að þau uppfylli tilskipun 2007/46/EB við nýskráningu og þurfi því ekki að sýna fram á það aftur hér á landi. Fylgi þá ökutækinu skráningarskírteini þar sem allar upplýsingar sem óskað er eftir komi fram, sbr. b-liður ákvæðis 03.05 (4) reglugerðarinnar. Sömu upplýsingar komi yfirleitt ekki fram á titilsbréfi sem fylgir ökutækjum frá t.d. USA og Kanada. Sé þá nauðsynlegt að óska eftir tæknivottorði sem beri þá sömu upplýsingar og evrópskt skráningarskírteini, sbr. síðasta málsgrein ákvæðis 03.05 (4) b. Það sé rétt að ekki séu sömu kröfur gerðar til bifhjóla og fornökutækja og gerðar eru til bifreiða. Um bifhjól gildi almennt aðrar reglur en um bifreiðar, þ.e. reglugerð 168/2013/EB. Þá lúti fornökutæki, þ.e. eldri en 25 ára, sérstökum reglum og séu ekki gerðar sömu kröfur til þeirra og annarra ökutækja enda séu þau ekki ætluð til almennrar notkunar. Þá bendir SGS á að kærandi haldi því fram að í verklagsreglum komi fram krafa sem sé grófleg mismunun og fullkomlega óraunhæf krafa um notaðar bifreiðar. Telji kærandi að það sé eingöngu sett til að torvelda innflutning notaðra bifreiða frá USA og sé með öllu órökstutt. Umrætt ákvæði sé undanþáguákvæði þar sem fram komi að gerð sé sú krafa um mengun að ökutækin uppfylli núgildandi Euro mengunarstaðla eða sambærilegar kröfur, s.s. „California Standard“ eða „All Fifty States“. Í lið (15) í ákvæði 18.10 reglugerðar nr. 822/2004 segi að bifreið teljist uppfylla kröfur um útblástursmengun ef hún uppfyllir þann staðal sem í gildi er fyrir hana á hverjum tíma samkvæmt ákvæðum EB tilskipunar 2005/55/EB, EB reglugerðar nr. 715/2007 og EB reglugerðar nr. 595/2009. Við skráningarviðurkenningu samkvæmt 3. gr. sé SGS heimilt að viðurkenna aðra staðla en þá sem um getur í 1. mgr., að því gefnu að þeir teljist sambærilegir með tilliti til umferðaröryggis- og umhverfissjónarmiða að mati stofnunarinnar. Þá tekur SGS fram að Euro mengunarstaðlarnir gildi bæði um nýjar og notaðar bifreiðar og þurfi þær að uppfylla ströngustu kröfur sem um þær giltu er bifreiðin var fyrst skráð. Sú staðhæfing kæranda að tugþúsundir bíla standist ekki Euro 5 staðal, sem SGS setji sem skilyrði fyrir forskráningu notaðra bifreiða frá USA, sé ekki á rökum reist. Þær kröfur sem gerðar eru til innfluttra bifreiða séu þær sem í gildi voru við forskráningu þeirra. Þá telur SGS það rétt hjá kæranda að í USA sé oft settur límmiði í rúðu nýrra bifreiða. Slíkur miði myndi þó aldrei teljast jafngildi vottorðs frá framleiðanda. Sé það því tækniskýrsla sem nær alltaf þurfi að kaupa fyrir bifreiðar frá USA en stundum geti framleiðandi búið til yfirlýsingu. Komi þessar upplýsingar yfirleitt fram í skráningarskírteinum bifreiða sem koma frá Evrópu. Fjölmargar bifreiðar séu fluttar inn frá USA og öðrum ríkjum utan EES ár hvert án vandræða. Þetta geti því vart talist óeðlilegar kröfur.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu kæranda að umrædd bifreið af gerðinni Mazda 3 Speed uppfyllti mengunarkröfur sem gerðar eru til ökutækja sem flutt eru inn frá USA. Hafa sjónarmið SGS og kæranda verið rakin hér að framan.

Um gerð og búnað ökutækja gildir reglugerð með því sama nafni nr. 822/2004. Er reglugerðin sett með heimild í þar til greindum ákvæðum umferðarlaga sbr. 26. gr. reglugerðarinnar. Í inngangi reglugerðarinnar kemur fram að markmiðið með henni sé að tryggja umferðaröryggis- og umhverfisjónarmið. Kveði reglugerðin m.a. á um tæknilegar kröfur þegar ökutæki er skráð á Íslandi, ásamt kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætluð eru í ökutæki. Hún setji samræmd viðmið til þess að auðvelda skráningu, sölu og notkun ökutækja á EES svæðinu, ásamt því að kveða á um kröfur um tæknilegt ástand ökutækja í notkun.

Um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja er fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðarinnar. Samkvæmt ákvæði 03.05 (4) b reglugerðarinnar skulu upplýsingar samkvæmt ákvæðinu, m.a. um útblástursmengun, staðfestar með vottorði frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu í frumriti, þar sem fram kemur verksmiðjunúmer viðkomandi ökutækis. Liggur fyrir að engin slík hafa verið lögð fram af hálfu kæranda.

Samkvæmt ákvæði 03.05 (5) reglugerðarinnar er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 03.05 (4) b á grundvelli þess að ekki sé unnt að fá útgefið vottorð sem áskilið er samkvæmt því ákvæði. Þegar slík undanþága er veitt skal SGS meta hvort ökutæki fullnægir kröfum til skráningarviðurkenningar. Skal matið fara fram í samræmi við verklagsreglur sem SGS setur um undanþágu samkvæmt ákvæðinu. Í þeim verklagsreglum SGS kemur fram að við mat á því hvort samþykkja beri umsókn um forskráningu á grundvelli undanþáguheimildarinnar séu lögð til grundvallar þau sjónarmið sem koma fram í tilskipun 2007/46/EB er varða umhverfis- og umferðaröryggi. Samkvæmt verklagsreglunum gerir SGS þá kröfu um mengun að ökutækin uppfylli núgildandi Euro mengunarstaðla eða sambærilegar kröfur, s.s „California Standard“ eða „All Fifty States“.

Ráðuneytið telur að tilgreindar verklagsreglur SGS um hvenær heimilt sé að beita ákvæði undanþáguheimildar ákvæðis 03.05 (5) séu í samræmi við það markmið reglugerðarinnar sem fram kemur í inngangi hennar og rakið er hér að framan. Þá sé SGS rétt við slíkt mat að leggja til grundvallar þau sjónarmið sem fram koma í tilskipun 2007/46/EB varðandi umhverfisvernd og umferðaröryggi. Telur ráðuneytið þannig ekki tilefni til að gera athugasemd við þá kröfu SGS að ökutækin uppfylli núgildandi Euro mengunarstaðla eða sambærilegar kröfur, sbr. og einnig ákvæði 18.10 reglugerðarinnar, en samkvæmt því ákvæði telst bifreið uppfylla kröfur um útblástursmengun ef hún uppfyllir þann staðal sem í gildi er fyrir hana á hverjum tíma samkvæmt ákvæðum þar til greindrar tilskipunar og reglugerðar EB. Telur ráðuneytið að ekki verði séð að fyrir liggi nein slík gögn þannig að réttlætanlegt sé að undanþáguákvæði 03.05 (5) verði beitt. Eru því ekki uppfyllt skilyrði fyrir beitingu undanþágunnar og er skilyrðum fyrir forskráningu ökutækisins þannig ekki fullnægt. Er það mat ráðuneytisins að þegar af þessari ástæðu sé rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Þá telur ráðuneytið að við meðferð málsins hafi SGS leitast við að upplýsa kæranda um þau gögn sem fylgja þyrftu umsókn hans um forskráningu. Hafi SGS við meðferð málsins þannig sinnt þeirri leiðbeiningarskyldu sem á stofnuninni hvílir samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu sambandi áréttar ráðuneytið einnig að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum barst SGS ekki formleg umsókn um forskráningu bifreiðarinnar fyrr en þann 2. október 2017 og var því ekki um það að ræða að SGS gæti tekið afstöðu til slíkrar umsóknar fyrr en eftir þann dag. Þá tekur ráðuneytið undir það með SGS að aðrar reglur gildi um skráningu bifhjóla og fornökutækja heldur en bifreiða og því séu ekki gerðar sömu kröfur til þeirra og annarra ökutækja. Þá tekur ráðuneytið einnig undir það með SGS að þegar ökutæki eru flutt hingað frá ríki innan EES svæðisins hafi áður verið sýnt fram á að þau uppfylli tilskipan 2007/46/EB. Þurfi því ekki að sýna fram slíkt á ný við skráningu hér á landi. Einnig telur ráðuneytið rétt að árétta hvað varðar mengunarstaðla að þeir gilda bæði um nýjar og notaðar bifreiðar. Varðandi innfluttar bifreiðar gilda þær reglur og kröfur sem í gildi voru þegar þær voru forskráðar.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 3. október 2017 um að synja umsókn X um forskráningu bifreiðar af gerðinni Mazda 3 Speed.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum